Þekkingarnetið og þróun næstu ára

Undanfarna mánuði hefur Þekkingarnetið leitt hugmyndavinnu við þróun þekkingarstarfsemi héraðsins til næstu ára. Unnið er samtímis að nokkrum verkefnum þessu tengdu, þar á meðal rannsóknaverkefnum um áhrif 4. iðnbyltingarinnar á byggðir landsins. Einnig er unnið að hagnýtari málum sem snúa að samstarfi stofnana og fyrirtækja í héraðinu m.a. með það í huga að stækka þá klasa sem starfa við rannsóknir og þróun á starfssvæðinu og koma þeim undir eitt og sama þakið.  Þekkingarnetið vinnur að þessum málum með hlutaðeigandi stofnunum, þ.m.t. Náttúrustofu Norðausturlands, Rannsóknasetri Háskóla Íslands og SSNE. Vonir standa til þess að í Þingeyjarsýslu verði hægt á næstu misserum að efla verulega starfsemi í atvinnuþróun, rannsóknum og menntunarþjónustu, íbúum og atvinnulífi til góða.  Einn þáttur í þessari endurskoðun þekkingargeirans á svæðinu snýst um að stofnsetja og tryggja í rekstur aukna þjónustu við frumkvöðla og nýsköpunarverkefni um allt hérað. Á þeim grunni er einnig sérstaklega unnið að uppbyggingu öflugs frumkvöðlaseturs á Húsavík, sem mynda muni suðupott atvinnulífs og rannsókna innan um þekkingarstarfsemina.  Viðræður standa yfir um nýja húsnæðiskosti til þessarar starfsemi, einkum á Húsavík og í Mývatnssveit. Heildarhugmyndin um stóran klasa þróunar-, þekkingar- og rannsóknastarfsemi undir einu þaki á Húsavík hefur þannig fengið vinnuheitið „FRYSTIHÚSIГ, sem m.a. vísar til þess að verið er að skoða möguleikann á því að hið nýja setur verði hýst í húsinu í miðbæ Húsavíkur þar sem áður var frystihús Fiskiðjusamlags Húsavíkur. Á sama grunni hefur verkefnið um frumkvöðlasetur á Húsavík fengið vinnuheitið „Hraðið“, sem sem einnig vísar í staðbundnar málvenjur þar sem talað var um „Hraðið“ sem hraðfrystinguna í sama húsi. Engar ákvarðanir hafa þó verið teknar um þessi verkefni eða húsnæðiskosti.

Deila þessum póst