Í sumar var unnið að rannsókn á viðhorfum eldri íbúa í Skútustaðahreppi til þjónustu við hópinn sem og hvers konar þjónustu íbúarnir sjá fyrir sér að þeir muni hafa þörf fyrir á komandi árum. Horft var til hvort tveggja þeirrar þjónustu sem sveitarfélög veita, svo sem akstursþjónustu og heimsendingu á mat, og þörf íbúa fyrir búsetuúrræði.
Rannsóknin var tvíþætt. Annars vegar var Skútustaðahreppur og sú þjónusta og úrræði sem þar eru til staðar borin saman við sveitarfélög að áþekkri stærð og gerð. Hins vegar var hringt í Mývetninga 60 ára og eldri sem höfðu lögheimili í Skútustaðahreppi 1. des. 2015 og viðhorf þeirra könnuð gagnvart þjónustu við aldraða og þarfir fyrir þjónustu á komandi árum.
Rannsóknin sem var samstarfsverkefni Þekkingarnetsins og Skútustaðahrepps var unnin að frumkvæði Skútustaðahrepps. Sonja Sif Þórólfsdóttir, var ráðin til Skútustaðahrepps fyrir styrk frá Vinnumálastofnun vegna sumarstarfa háskólanema, og vann hún verkefnið undir leiðsögn starfsfólks Þekkingarnets Þingeyinga og hafði aðsetur á Þekkingarsetrinu á Húsavík til að sinna verkefninu.
Af 84 íbúum í Skútustaðahreppi náðist í 69 og af þeim svöruðu 50 þátttakendur könnuninni sem var símakönnun. Svarhlutfall var því nokkuð gott og ætti að gefa ágætis mynd af þörfum og skoðunum eldri íbúa.
Skýrslu með niðurstöðum rannsóknarinnar er að finna hér.