Þekkingarnet Þingeyinga, í samstarfi við Tónlistarskóla Húsavíkur og Félagsþjónustu Norðurþings hefur komið af stað af áhugaverðu verkefni sem miðar að því að gera tónlistarnám aðgengilegra fyrir fólk með sértækar stuðningsþarfir. Verkefnið er að finnskri fyrirmynd og miðar að því að fólk með sértækar stuðningsþarfir njóti sömu tækifæra og aðrir þegar kemur að tónlistarnámi.
Guðni Bragason tónlistarstjóri Tónlistarskóla Húsavíkur fékk hugmynd að þessu verkefni nú á vordögum og hafði samband við Félagsþjónustu Norðurþings og Þekkingarnet Þingeyinga til að kanna áhuga á samstarfi. Hugmyndin var það góð að ekki stóð á viðbrögðum. Undirbúningur verkefnisins fór strax af stað og nú á haustdögum hófu 16 nemendur nám í Tónlistarskólanum. Þetta er í fyrsta skipti sem tónlistarnám fyrir þennan markhóp er í boði hér á starfssvæði Þekkingarnetsins og mikil ánægja með að allt sé komið í gang.
Þekkingarnet Þingeyinga hefur nú í mörg ár verið með þjónustusamning við Fjölmennt og fengið fjármagn í gegnum hann til að halda allskonar námskeið fyrir fólk með sértækar stuðningsþarfir. Tómstundarnámskeið af ýmsum toga hafa verið hér í boði undanfarin ár ásamt leiklistar- og söngnámskeiðum sem endað hafa með sýningum sem farið hafa fram út björtustu vonum.
Við erum mjög ánægð með að koma að þessu verkefni og hlökkum til að fylgjast með nemendunum blómstra í Tónlistarskólanum.