Þekkingarnet Þingeyinga er símenntunar-, háskólanáms- og rannsóknasetur sem starfar á grunni tveggja stofnana er sameinaðar voru árið 2006. Annars vegar er um að ræða símenntunarmiðstöðina Fræðslumiðstöð Þingeyinga og hins vegar háskólanáms- og rannsóknasetur sem starfaði undir nafni Þekkingarseturs Þingeyinga fram að sameiningunni. Símenntunarstarfsemin hófst árið 1999 um svipað leyti og aðrar símenntunarstöðvar á landinu hófu starfsemi. Háskólanáms- og rannsóknahlutinn fór hins vegar af stað árið 2003 samhliða Náttúrustofu Norðausturlands, sem starfar undir sama þaki og höfuðstöðvar Þekkingarnetsins á Húsavík.
Starfsemi Þekkingarnets Þingeyinga er þríþætt í meginatriðum:
1. Símenntun og fullorðinsfræðsla
Þekkingarnetið hefur skilgreindu hlutverki að gegna á sviði símenntunar og fullorðinsfræðslu með sama hætti og átta aðrar símenntunarmiðstöðvar víða um landið, sem menntamálaráðuneytið fjármagnar. Þannig er setrið miðstöð símenntunar og fullorðinsfræðslu í héraðinu og býður námskeiðsleiðir og hefur milligöngu um nám. Þekkingarnet Þingeyinga skuldbindur sig til þess að tryggja að nemendur geti lokið þeim námskeiðum og/eða námsleiðum sem stofnunin fer af stað með. Þetta tryggir stjórn stofnunarinnar að sé ávallt mögulegt þrátt fyrir allar breytingar sem kunna að verða á rekstrarumhverfi stofnunarinnar.
2. Háskólanám og -námsþjónusta
Rekstur öflugs háskólanámsseturs, með þeim búnaði sem til þarf og góðri vinnuaðstöðu er einn af hornsteinunum í starfsemi Þekkingarnetsins. Með þessu er markmiðið að þjónusta sívaxandi hóp háskólanema í héraðinu og skapa þeim skilyrði til að stunda nám sitt án þess að þurfa að flytja búferlum. Áhersla er lögð á að veita íbúum Þingeyjarsýslu þjónustu í sinni heimabyggð og er þjónusta af einhverju tagi við háskólanema í öllum þéttbýliskjörnum sýslunnar. Að auki koma starfsmenn Þekkingarnetsins að kennslu á háskólastigi á sínu sérsviði í samstarfi við háskólana í nágreninu.
3. Rannsóknastarf og -þjónusta.
Þekkingarnetið leggur mikla áherslu á að byggja upp öflugan þverfaglegan vettvang fyrir rannsóknir innan héraðs, þ.e. í Þingeyjarsýslum, með áherslu á þau svið sem skapa héraðinu sérstöðu og gefa efnivið til rannsóknarstarfs. Þá tekur stofnunin sjálf þátt í rannsóknaverkefnum á sérsviði starfsmanna eftir því sem möguleikar gefast.
Hefur þú athugasemdir við störf Þekkingarnetsins?
Ef svo er þá höfum við skilgreint eftirfarandi farveg fyrir þjónustuþega, viðskiptavini og nemendur með stjórnarsamþykkt:
- Ef ágreiningur er uppi um ákvarðanir og/eða vinnubrögð starfsmanna Þekkingarnetsins leitar nemandi fyrst til forstöðumanns með erindi sitt.
- Ef ágreiningur leysist ekki með aðkomu forstöðumanns getur nemandi/þjónustunotandi borið erindi sitt upp við stjórn stofnunarinnar til afgreiðslu. Forstöðumaður kynnir þennan valkost og kemur nemanda í samband við formann stjórnar hverju sinni.
- Ágreiningsmál skulu borin upp með skriflegum, rekjanlegum hætti.