
Um helgina var mikið um að vera á Þórshöfn, hinn árlegi jólamarkaður var haldinn og Menntasetrið stóð fyrir sútunarnámskeiði. Við fengum listakonuna og snillinginn hana Lene Zachariassen til okkar til að leiðbeina með sútun á lambsgærum. Lene heldur sig við gamlar aðferðir og notar verkfæri úr náttúrunni til að meðhöndla gærurnar eins og til dæmis hrossaleggi, trjágeinar, pimpsteina og grófan sand.
Heyrst hefur að heimasútaðar gærur séu mikið fallegri en þær verksmiðjuframleiddu en við seljum það ekki dýrara en við keyptum það. Farið var yfir allt sútunarferlið og fengu þátttakendur allir eina gæru til að súta og halda því nú áfram heima við, en sútunarferlið tekur a.m.k. tvær vikur.
Til stendur að Lene komi til okkar með tvö námskeið eftir áramót, annað sútunarnámskeið og námskeið þar sem er fléttað úr hrosshárum. Byrjað er að taka við skráningum á bæði námskeiðin.