
Síðastliðinn laugardag var efnt til veislu á Kópaskeri. Tilefnið var útskrift úr Landnemaskólanum. Námsleiðin er 120 kennslustundir og hefur kennsla staðið yfir frá því fyrir áramót. Alls voru 10 nemendur sem hófu nám í haust og 8 sem útskrifuðust með glæsibrag á laugardaginn. Aðal kennari námsleiðarinnar og sá sem hefur haft umsjón með henni að stærstu leyti er Inga Sigurðardóttir. Inga hefur náð ótrúlega vel til nemenda og gekk þetta því allt eins og í sögu.
Landnemaskólinn er ætlaður fullorðnu fólki á vinnumarkaði, sem ekki eiga íslensku að móðurmáli.
Liður í undirbúningi fyrir ústkriftarveisluna og sem hluti af samfélagskennslu var kleinubakstur. Nemendur hittust á fimmtudaginn og hnoðuðu og steiktu kleinur undir styrkri stjórn Ingu og Fríðu, sem er forstöðumaður Skjálftasetursins á Kópaskeri.
Við óskum öllum nemendum til hamingju með árangurinn og þökkum þeim sem og kennurunum öllum kærlega fyrir samstarfið í vetur.
