Í liðinni vikur voru samstarfsaðilar í verkefninu Nýskapandi samfélag í Norðurþingi í heimsókn á Húsavík þar sem verkefninu var formlega ýtt úr vör. Verkefnið hefur erlenda heitið CRISTAL – Creative Regions for Innovation, Skills, Technology, Accessibility and Learning. Á mánudag og þriðjudag voru stíf fundarhöld enda viðamikið verkefni og að ýmsu að hyggja til að skipuleggja næstu þrjú árin. Samstarfsaðilar í verkefninu eru Háskólinn á Akureyri, Háskólinn í Wales – Trinity Saint David, tækniþróunarfyrirtækið Lindberg&Lindberg frá Svíþjóð og Azienda Agricola “DORA” á Ítalíu sem er ólívubúgarður með sjálfbærni sem aðal markmið. Verkefnið snýst um að gera módel af samfélagi þar sem frumkvöðlamennt, tækninám, sjálfbærni og sköpun eru innleidd á öll skólastig með nýjum námsaðferðum. Í verkefninu heima í héraði eru einnig Norðurþing, Framhaldsskólinn á Húsavík og Atvinnuþróunarfélag Þingeyinga samstarfsaðilar og þátttakendur. Að fundarhöldum loknum var svo auðvitað farið með gestina í Hvalaskoðun og einnig skoðunarferð um Flatey, og mæltist það vel fyrir. Spennandi tímar og mikil vinna framundan.