Viðspyrna í mannfjöldaþróun í Þingeyjarsýslu

Á starfssvæði Þekkingarnets Þingeyinga eru sex sveitarfélög, öll með sín sérkenni og áherslur. Árlega gefur Þekkingarnetið út samantekt á mannfjöldaþróun á starfssvæði sínu og kom skýrslan út nú rétt fyrir jól. Núna er farið aðeins ítarlegar í breytingar á liðnum áratug. Þar má meðal annars finna meðalaldur íbúa í hverju sveitarfélagi sem og breytingar á dreifbýli og þéttbýli. Tölurnar eru miðaðar við mannfjölda 1. janúar 2018 en nýjar tölur koma fyrir 2019 koma er líður á árið. Talnaefni er af vef Hagstofu Íslands.

Íbúum hefur fjölgað nokkuð en þar hafa stórframkvæmdir á Bakka við Húsavík hafa nokkur áhrif. Þar má sjá að fjölgun íbúa í Norðurþingi liggur að nokkru leyti í fjölgun karlmanna á aldrinum 20-60 ára, sem flestir unnu við framkvæmdirnar. Áhugavert verður að fylgjast með þessari þróun næstu árin.

nordurth

 

 

 

 

 

 

 

Það er þó ekki bara í Norðurþingi sem íbúum fjölgar heldur er hlutfallsleg fjölgun meiri í Skútustaðahreppi þar sem íbúum fjölgaði um 16% á milli ára og liggur þar að nokkur leyti í ungu fólki á barnseignaraldri sem og börnum. Kynjahlutfallið er einnig hnífjafnt sem er óvanalegt í dreifðum byggðum. Þessi þróun verður að teljast afar ánægjuleg og spurning hvort Þingeyska loftið sé eitthvað öðruvísi í Mývatnssveit. 

mýv2

 

 

 

 

 

 

 

mýv

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Meðalaldur í Þingeyjarsýslu er 41 ár en landsmeðaltal er 38 ár en þetta helst í hendur við fækkun fólks á barnseignaraldri sem og færri barnsfæðingar.

meðalaldur

 

 

 

 

 

 

 

Hér má sjá þróun íbúafjölda í dreifbýli og þéttbýli

dreif

 

 

 

 

 

 

 

Skýrsluna má finna hér undir útgefið efni.

Helstu niðurstöður.

Íbúum í Langanesbyggð fækkaði um 3 frá síðasta ári og er nú annað árið í röð undir 500 manns. Mannfjöldi þar hefur sveiflast lítillega innan ákveðinna marka síðustu 10 árin. Athyglisvert er að sjá að konum fækkar heldur og eru nú 44,5% íbúa, sem þýðir að á hverja 100 karla eru 80 konur. Nokkuð góð aldursdreifing hefur verið innan sveitarfélagsins, nokkur fjöldi barna og ungs fólks en aðeins hefur dregið saman þar. Í fyrsta sinn í 10 ár er meðalaldurinn ekki undir landsmeðaltali og er nú ári hærri eða 39 ár. Tveir byggðakjarnar eru í sveitarfélaginu, Þórshöfn og Bakkafjörður, og hefur fækkað nokkuð á Bakkafirði sem og í dreifbýli í sveitarfélaginu.

Í Svalbarðshreppi fækkaði um 3 íbúa og eru þeir nú 92 talsins. Þar hefur konum einnig fækkað frekar en körlum, og eru hlutfallið 80 konur á hverja 100 karla eða það sama og í Langanesbyggð sem tilheyrir sama byggðarlagi. Meðalaldur er hærri en landsmeðaltal eða 40 ár. Aldursdreifing er nokkuð ójöfn og erfitt að álykta um hana vegna fámennis.

Töluverð fjölgun hefur átt sér stað í Norðurþingi en þar  hefur íbúum fjölgað um 271 á milli ára. Þar hafa þó iðnaðarframkvæmdir á Bakka mikið að segja, þar sem stór hluti fjölgunarinnar  liggur í ungum karlmönnum. Meðalaldurinn er þó enn hærri en landsmeðaltal eða 41 ár. Karlar eru nú nokkuð fjölmennari en konur eða 76 konur á hverja 100 karla. Ef litið er 2 ár aftur í tímann þá var þessi tala 96 konur á hverja 100 karla árið 2016. Á mannfjöldapýramídanum má sjá að mesta fjölgun er meðal karlmanna á aldrinum 25-55 ára. Áhugavert verður að sjá þróun næstu árin í mannfjölda, þegar framkvæmdartíma lýkur.

Í Tjörneshreppi fækkaði um einn íbúa og eru þeir nú 58 talsins. Íbúafjöldi hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin ár og eru konur fleiri en karlar þar sem hlutfall karla er 87 á hverjar 100 konur. Með svo fáa íbúa er hins vegar ekki mögulegt að álykta út frá íbúatölum, mjög fá börn eru í sveitarfélaginu og vantar fólk í marga árganga.

Íbúum í Þingeyjarsveit fjölgaði um 47 á milli ára og er það nokkur fjölgun eftir nokkurra ára tímabil þar sem breytingar voru afar litlar. Þessa fjölgun má þó skýra að miklu leyti með erlendum starfsmönnum  við framkvæmdir á Þeistareykjum. Kynjahlutfallið hefur breikkað nokkuð allt frá árinu 2014, og eru nú 74 konur á hverja 100 karlmenn. Mögulega kann að vera að tímabundin búseta erlendra starfsmanna við uppbyggingu á Þeistareykjum  feli hér raunverulega fólksfækkun, ef miðað er við hversu mikið konum hefur fækkað.

Íbúum í Skútustaðahreppi fjölgaði um 68 milli ára sem er þó nokkur aukning , og hefur þá fjölgað um 122 íbúa á fjórum árum sem verður að teljast eftirtektarvert. Kynjasamsetning er mjög jöfn og eru 99 konur á hverja 100 karla. Meðalaldur lækkar og er nú undir landsmeðaltali. Ef litið er á mannfjöldapýramídann má sjá að þessi aukning er að mestu leyti í ungu fólki af báðum kynjum, sem og í fjölgun barna. Þarna er því ákveðinn mótstraumur að eiga sér stað og pýramídinn ekki lengur „mittismjór“ með skorti á ungu fólki á barnseignaraldri.

Byggðakjarnar

Íbúum á Bakkafirði hefur fækkað síðustu ár, voru 86 árið 2015 en eru nú 65 talsins.

Á Þórshöfn fjölgaði íbúum um 6 milli ára og eru nú 352. Íbúum hefur fækkað lítillega síðustu ár en fjöldinn er þó nokkuð stöðugur.

Á Raufarhöfn er að verða jákvæður viðsnúningur síðustu ár en íbúar eru nú 186 og fjölgaði um 13 frá síðasta ári.

Á Kópaskeri hefur einnig orðið fjölgun en þar fjölgaði um 13 íbúa úr 109 í 122, sem er fjölgun um nærri 9%. Íbúatalan er því komin á svipað ról og var árin þar á undan.

Á Húsavík var nokkur fjölgun en þar fór talan úr 2196 íbúum upp í 2323, sem er fjölgun um 127 íbúa. Þar hefur sem áður segir tímabundin búseta erlendra starfsmanna mikið að segja.

Á Laugum fjölgaði um 3 íbúar og eru þeir nú 109 talsins. Smá sveiflur hafa verið í mannfjölda þar undanfarin ár og voru flestir 128 árið 2015.

Í Reykjahlíð fjölgar íbúum um 42, sem er umtalsverð fjölgun eða  25%. Er það mikil sveifla frá fyrri árum en íbúar voru 185 árið 2009 og fóru niður í 141 árið 2014.

 

Á heildina litið  fjölgar íbúum á svæðinu og hefur gert það frá árinu 2014. Þá voru íbúar 4786 eftir nokkra fækkun árin á undan. Hægur viðsnúningur var eftir 2015 og svo stökk milli ára 2017 og 2018. Þar hafa framkvæmdir á Bakka við Húsavík og á Þeistareykjum mikið að segja. Ekki má þó  líta fram hjá sérstaklega jákvæðri þróun í Mývatnssveit, sem ekki verður eingöngu tengd við þær framkvæmdir. Í Skútustaðahreppi hefur íbúum fjölgað mikið bæði í þéttbýli og dreifbýli, sem áætla má að tengist fjölgun ársstarfa í ferðaþjónustu. Það verður forvitnilegt að fylgjast með þessari þróun næstu árin, en reynslan annars staðar frá m.a. á Austurlandi hefur sýnt að þar sem svo stórar framkvæmdir eiga sér stað tekur  nokkur ár að ná jafnvægi á tölur um íbúafjölda.

 

 

Deila þessum póst