
Það er alls ekki víst að margir komi til með að sakna þessara fyrstu mánaða ársins 2020. Þetta hefur verið ansi skrautlegur tími. Veturinn var harður og tíðarfarið hérna á okkar svæði ansi hreint hryssingslegt. Covid-19 hefur einnig sett flest alla starfsemi sem og daglegt líf töluvert úr skorðum. En þetta er allt að sigla í rétt átt núna. Vor í lofti, farfuglarnir margir hverjir mættir og starfsfólk Þekkingarnetsins hlakkar til að geta opnað húsið eftir 4. maí. Við munum að sjálfsögðu þó fara eftir öllum þeim reglum sem áfram gilda og passa upp á 2 metra bilið. Starfsemi okkar hefur verið með dálítið öðru sniði undanfarnar vikur. Mikið hefur verið að gera í allskonar fjarnámskeiðum og fjarkennslu. Íslenskunámskeiðin okkar hafa þó verið í pásu en við vonumst til að geta byrjað þau aftur í byrjun maí.
En það er nóg framundan, í apríl og maí ætlum við að bjóða upp á fjölbreytt námskeið til dæmi: Að takast á við erfiða viðskiptavini, Ljósmyndun með símanum, Forræktun mat- og kryddjurta, Markaðssetning á netinu og Mannlega millistjórnandann. Allar frekari upplýsingar um námskeiðin má finna hér: https://hac.is/inna/
Við viljum einnig minna fyrirtæki þar sem starfsemin er skert að einhverju leyti að kannski er þetta dauðafæri til að efla starfsfólkið með endurmenntun og fræðslu. Við á Þekkingarnetinu eru meira en klár í þá vinnu með ykkur. Ekki hika við að hafa samband ef þið eruð í slíkum hugleiðingum í síma 464-5100 eða á hac@hac.is