Háskólanám

Eitt af meginhlutverkum Þekkingarnets Þingeyinga er þjónusta við háskólanemendur sem búsettir eru á starfssvæðinu. Þessi þjónusta er víðtæk og getur verið af ýmsum toga, s.s. fjarprófahald, námsráðgjöf og almennur stuðningur auk þess að reka vinnuaðstöðu fyrir nemendur heima í héraði.

Þekkingarnet Þingeyinga starfrækir háskólanámssetur að Hafnarstétt 3 á Húsavík. Þetta setur er kallað í heild „Þekkingarsetrið á Húsavík“ og er þar á vegum Þekkingarnets Þingeyinga kennslustofa með fjarfundabúnaði, fullbúin les- og vinnuaðstaða og prent- og ljósritunaraðstaða fyrir háskólanema. Auk þess kaffi- og matstofa og önnur sjálfsögð sameiginleg aðstaða. Þekkingarnetið er tengt sk. FS-neti, sem er háhraðanet framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva. Þráðlaust netsamband er í lesrýminu og kennslustofunni sem gert er ráð fyrir að háskólanemar hagnýti sér eftir þörfum við vinnu sína innan Þekkingarsetursins. Með tilkomu háskólanámssetursins stórbötnuðu möguleikar háskólanema sem hafa búsetu á Húsavíkursvæðinu til að stunda nám sitt. Þekkingarnet Þingeyinga rekur háskólanámssetrið og þjónustar háskólanemana sem nýta sér aðstöðu setursins.

Á Þórshöfn var opnað á árinu 2009 Menntasetrið á Þórshöfn, en þar er mönnuð starfsstöð Þekkingarnets Þingeyinga. Menntasetrið er rekið samhliða framhaldsskóladeild Framhaldsskólans á Laugum á Þórshöfn og í nánu samstarfi við skólann. Langanesbyggð stendur að baki verkefninu og hefur lagt til húsnæði til starfseminnar. Í Menntasetrinu á Þórshöfn býður Þekkingarnet Þingeyinga fjarfundabúnaði til kennslu, náms og funda, lesrými fyrir fjarnema og aðstöðu til prófatöku.

Á öðrum stöðum í héraðinu, þ.e. á Laugum, í Mývatnssveit, á Kópaskeri og í Kiðagili er boðið upp á vinnuaðstöðu fyrir nema, fjarfundabúnaði og aðstöðu til fjarprófa. Þessi aðstaða og þjónusta er veitt eftir þörfum og samkomulagi  hverju sinni.

Það er almenn stefna stjórnar Þekkingarnets Þingeyinga að nemendur opinberra skólastofnana þurfi ekki að greiða sérstök gjöld fyrir afnot af námsaðstöðu og -þjónustu Þekkingarnets Þingeyinga á starfssvæðinu.