Reglur og vinnulagum fjarpróf hjá Þekkingarneti Þingeyinga.*
Reglurnar gilda um fjarpróf í umsjón Þekkingarnets Þingeyinga. Reglurnar eru kynntar samstarfsskólum Þekkingarnetsins og birtar á heimasíðu stofnunarinnar. Óski skóli eftir annarri tilhögun mála en lýst er í þessum reglum hefur hann samband við Þekkingarnetið.
Próftökustaðir Þekkingarnets Þingeyinga:
- Próftökustaðir á starfssvæði Þekkingarnets Þingeyinga (ÞÞ) eru eftirfarandi:
- Húsavík: Þekkingarsetrið á Hafnarstétt 3
- Laugar: Námsver ÞÞ í þekkingarsetrinu Urðarbrunni
- Mývatnssveit: Mikley
- Bárðardalur: Kiðagil
- Kópasker: Námsver ÞÞ, skólahúsinu Kópaskeri
- Raufarhöfn: Námsver ÞÞ, „ráðhúsinu“ Raufarhöfn
- Þórshöfn: Menntasetrið á Þórshöfn
- Aðrir staðir í Þingeyjarsýslu eftir óskum nemenda/skóla hverju sinni og þá að uppfylltum öllum kröfum sem hér er lýst (dæmi: Lundur, Bakkafjörður, Stórutjarnir).
- Öllum skólum standa ofangreindir prófstaðir til boða til fjarprófahalds og gilda um alla staðina reglur og vinnulag um fjarpróf sem hér er lýst.
Hlutverk og skyldur aðila:
Þekkingarnet Þingeyinga
- Húsnæði til fjarprófa þarf að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
- Húsgögn séu sambærileg við húsgögn í háskólum.
- Loftgæði og hitastig uppfylli kröfur opinberra aðila.
- Sími sé á staðnum sem starfsmaður í prófyfirsetu hefur aðgang að.
- Salernisaðstaða sé á prófstað.
- Rafræn próf sem taka skal undir eftirlitii
- Þekkingarnet Þingeyinga sér nemendum, sem þurfa að þreyta rafræn próf undir eftirliti prófvarða, fyrir tölvum nema skóli heimili að nemendur noti eigin tölvur.
- Tryggja þarf að netsamband sé til staðar eða slökkt á því eftir eðli prófsins.
- Nemanda sem notast við tölvu í prófi, hvort sem er í rafrænu prófi eða vegna undanþága, má aldrei skilja eftirlitslausan eftir í prófstofu.
- Yfirseta fjarprófa fer fram með eftirfarandi hætti:
- Þekkingarnet Þingeyinga útvegar fólk til yfirsetu í prófum og ber ábyrgð á því að farið sé eftir þessum reglum.
- Heimilt er að sitja yfir fleiri en einu prófi samtímis í sama sal.
- Almennt gildir að fólk í yfirsetu má aldrei víkja úr sal á meðan prófi stendur. Sú undantekning er þó heimil að sé nemandi einn í prófsal er yfirsetumanni heimilt að víkja tímabundið úr prófsal, að því tryggðu að engin gögn, tæki, yfirhafnir eða annað séu í prófsal (sbr. prófreglur að neðan).
- Meðferð prófgagna og prófúrlausna séu með eftirfarandi hætti:
- Prófyfirsetuaðili tekur á móti prófúrlausnum og sendir síðan viðkomandi skóla frumrit úrlausnar í landpósti. Sé óskað eftir að prófið sé sent í ábyrgð eða með öðrum hætti er það eftir óskum viðkomandi skóla og á kostnað hans. Háskólar geta óskað eftir því að öryggisafrit sé tekið af prófúrlausn, með skönnun eða ljósritun, og standa þá sjálfir straum af kostnaði við það.
- Prófumsjónaraðili
- Þekkingarnet Þingeyinga skal tilnefna prófumsjónarmann úr hópi starfsmanna. Þessi prófumsjónaraðili ber ábyrgð á samskiptum við skóla, móttöku prófa og skilum úrlausna.
- Tilkynningar
- Ef upp koma óvæntar aðstæður við fjarprófahald, s.s. rafmagnsleysi, mistök við fyrirlagningu prófa eða grunur um að rangt hafi verið haft við skal Þekkingarnet Þingeyinga tilkynna viðkomandi skóla og taka ákvörðun um framhaldið í samráði við skólann.
Skólar
- Skólar verða að hafa próf tilbúin á vefsvæði, send í tölvupósti eða með landpósti í síðasta lagi 24 tímum fyrir próf.
- Skólar bera ábyrgð á því að tilkynna Þekkingarneti Þingeyinga um fjarprófahald á þeirra svæði og óska eftir þjónustu.
- Ef rafræn gögn eru lögð fram, sem hluti af prófi (t.d. hljóðupptökur), þá er það á ábyrgð skóla að tryggja að Þekkingarnet Þingeyinga geti lagt gögnin fyrir. Símenntunarmiðstöðvar/háskólasetur bera ekki ábyrgð á rafrænum gögnum skóla.
- Skólar tryggja, með samráði við Þekkingarnet Þingeyinga, að prófabækur viðkomandi skóla séu til staðar á hverjum prófstað.
- Tilkynningar
- Ef upp koma óvæntar aðstæður við fjarprófahald, s.s. rafmagnsleysi, grunur um að rangt hafi verið haft við eða mistök við fyrirlagningu prófa skal háskóli tilkynna viðkomandi símenntunarmiðstöð/háskólasetri og taka ákvörðun um framhaldið í samráði við skólann.
Prófreglur
- Nemendum ber að slökkva á farsímum og afhenda þá prófgæslufólki til geymslu á meðan próf stendur yfir.
- Óheimilt er að hafa samband við aðra nemendur á meðan á prófi stendur. Einnig eru öll rafræn samskipti, svo sem póstur og msn bönnuð. Hafa skal slökkt á þessum samskiptatækjum í prófum.
- Geyma skal yfirhafnir, töskur og poka utan prófstofu eða fremst í prófstofu, eftir aðstæðum.
- Nemendur hafi jafnan gild skilríki með mynd aðgengileg fyrir prófgæslufólk. (Gengið verður um og mætingarlisti tekinn.)
- Á prófborði skulu ekki vera nein gögn önnur en prófgögn, ritföng, skilríki og leyfileg hjálpargögn samkvæmt fyrirmælum hverju sinni.
- Hafi nemandi af misgáningi tekið með sér óleyfileg gögn ber honum strax að afhenda þau prófyfirsetuaðila.
- Óheimilt er að fjarlægja nokkurn hluta prófgagna. Þetta gildir um öll gögn, þ.m.t. rissblöð.
- Nemendum er aðeins heimilt að yfirgefa prófborð áður en þeir hafa lokið prófinu, til þess að fara á salerni og aðeins undir eftirliti fylgdarmanns.
- Umsjónaraðili fjarprófs skal fyrir próf yfirfara prófstofu og salerni sem nemendur hafa aðgang og tryggja að ekki séu þar nein gögn, tölvur eða fjarskiptatæki.
- Nemendum er óheimilt að yfirgefa prófstofu fyrstu klukkustund prófs.
- Ef nemandi lýkur prófi áður en próftími er búinn skal hann láta yfirsetumann vita, skila úrlausn og fara hljóðlega út. Hafa skal hljóð frammi á göngum eða yfirgefa húsið.
- Samskipti við aðra prófmenn eða aðila utan prófstaðar eru óheimil á próftíma.
- Reykingar eru ekki leyfðar á próftíma.
- Brot á þessum reglum varða vísun frá prófi eða úr námskeiði eftir atvikum.
*Staðfest á fundi stjórnar Þekkingarnets Þingeyinga 25. apríl 2012