Húsavík – suðupottur nýsköpunar og þekkingar!

Byggðin og breytingarnar

[Pistill frá forstöðumanni í tilefni af undirbúningi að stofnun Hraðsins-nýsköpunarmiðstöðvar]

Á Húsavík hefur orðið mikil breyting á atvinnuháttum síðustu tvo áratugi. Framleiðsluiðnaður og sjávarútvegur hefur breyst og dregist saman en ferðaþjónusta komið á móti sem ein undirstöðugreinin. Þá hefur aukist nýting orku til iðnaðar. Miklar sviptingar hafa orðið á eignarhaldi atvinnufyrirtækja og starfsemi þeirra á svæðinu. Stórir póstar hafa horfið á brott og aðrir nýir komið í staðinn eða orðið til. Á þessum tíma hefur þekkingargeirinn, með rannsóknum, þróunarvinnu og fullorðinsfræðslu, einnig þróast hratt samhliða þessum miklu samfélagsbreytingum. Um aldamót samanstóð þessi geiri á Húsavík ekki af mikið meiru en mjóum vísum svæðisbundinnar atvinnuráðgjafar og símenntunar, í stökum einmenningsstofnunum. Í dag er hann burðug starfsemi öflugra stofnana í símenntun, rannsóknum, þróunarstarfi og háskólanámsþjónustu. Alls um 25 heilsársstarfsmenn og meirihluti fjármögnunar sjálfsaflafé.

Myndun þekkingargeirans á Húsavík

Þekkingargeirinn í Þingeyjarsýslum á sínar höfuðstöðvar á Húsavík og hefur á liðnum árum verið í beinum og vaxandi tengslum við atvinnulífið og þróun þess, m.a. með rannsóknaverkefnum í samstarfi við fyrirtæki og sveitarfélög, sem og þróunarvinnu í bæði svæðisbundnum og innlendum eða erlendum verkefnum. Dæmi um þetta er námsþjónusta af ýmsu tagi fyrir vinnustaði og starfsfólk, hvalarannsóknir í samvinnu við ferðaþjónustufyrirtæki, margvísleg atvinnuþróunarverkefni, greining efnahagslegra áhrifa atvinnulífsins og vöktun og úrvinnsla talnagagna fyrir sveitarfélög og atvinnulífið. Árið 2021 telur þekkingargeirinn á Húsavík um 25 starfsmenn á heilsársvísu auk margvíslegrar starfsemi í árstíðabundnum verkefnum. Stærstur hluti þessa starfar undir einu þaki í Þekkingarsetrinu á Húsavík (um 20 starfsmenn).

Húsavík dregur að sér hugmyndir

Húsavík, sem þéttbýlisstaður, hefur þær eigindir að eftirsóknarvert hefur reynst að sækja staðinn heim til hugmyndavinnu, tímabundinna verkefna og nýsköpunarvinnu. Ár hvert dregur Húsavík að sér fjölda erlendra og íslenskra einstaklinga með hugmyndir í farteskinu, til rannsókna- og þróunarverkefna, vinnu með fyrirtækjum á staðnum eða eigin verkefna. Er þá ótalið heimafólk og fyrirtæki, sem einnig hafa dregið fram og rekið áfram nýsköpunarhugmyndir. Eflaust eru margar ástæður fyrir því að Húsavík dregur að sér frumkvöðla og hugmyndir, meðal annars sterk og mótuð ímynd staðarins í markaðssetningu ferðaþjónustu á svæðinu, sem og sterkir innviðir í þjónustu eins og gistingu, matsölu og afþreyingarkostum sem draga til sín fólk. Þá er ljóst að tækifæri til að byggja á nýsköpunarvinnu eru sterk; með mikinn ferðamannafjölda, einstaka ásýnd og útsýni miðbæjar og hafnarsvæðisins, aðgengilega ósnortna náttúru, sterkar hefðir í matvælaframleiðslu, gnægð jarðvarmaorku og nálægð við norðurslóðir.

Nýsköpun útheimtir aðstöðu

Í allri stefnumótun ríkisins og sveitarfélaga um þessar mundir, þ.m.t. í byggðaáætlun og stefnumarkandi sóknaráætlunum, er nýsköpunarstarf og frumkvöðlastuðningur meðal meginstoða. Þekkingarstofnanirnar á Húsavík tengjast nýsköpunarstarfi allar að einhverju marki, en á liðnum árum hefur farið sívaxandi eftirspurn í vinnuaðstöðu frumkvöðla, rannsakenda og fyrirtækja í nýsköpunarhugleiðingum. Þessu hefur verið reynt að mæta að einhverju leyti, einkum á vegum Þekkingarnets Þingeyinga, með samnýtingu takmarkaðrar aðstöðu í námsverum fyrir fjarnema og stuðningi og ráðgjöf starfsfólks.

Til að styðja við frumkvöðla, hvort sem þeir eru aðkomnir gestir erlendir eða íslenskir eða heimafólk á Húsavík, þá þarf skilgreinda grunnaðstöðu og þjónustu. Það þarf að mynda jarðveg sem er frjór og rétt saman settur til að fræin geti náð rótum og myndað ávexti. Mjög hagkvæmt er að byggja frumkvöðlasetur á þeim sterka grunni sem þekkingarsamfélagið á Húsavík hefur þegar myndað. Þar er þegar kominn öflugur kjarni stofnana sem sinnir rannsóknum, þróun, ráðgjöf og  fræðslu og auðvelt að bæta við stuðningi við nýsköpun og hýsingu frumkvöðla.

Af hverju „Hraðið“?

Hraðið – nýsköpunarmiðstöð er setur frumkvöðla á Húsavík. „Hraðið“ er raunar vinnuheiti sem festst hefur á verkefninu, en það vísar til þekkts orðfæris frá árum áður á Húsavík um nýtt og tæknilegt „hrað“-frystihús staðarins. Á síðustu árum hefur orðið „hraðall“ (e. acclerator“) einnig orðið þekkt í nýsköpunarstarfi yfir vettvang eða aðstöðu sem ýtir undir eða hvetur áfram nýsköpunarstarf. Þetta heiti vísar til þessa líka. „Hraðið“ í frystihúsinu á Húsavík á síðari hluta 20. aldar var birtingarmynd nýsköpunarstarfs síns tíma þar sem komið var á legg hraðfrystihúsum með nýju verklagi. Síðar meir með stórmerkilegu frumkvöðlastarfi við innleiðingu stafrænna tækja við vigtun og meðferð fiskafurða. Marel hf. steig sín fyrstu spor á Húsavík á 9. áratug síðustu aldar við tilraunir af þessu tagi, í samstarfi við heimafyrirtækið, en eins og alkunna er telst Marel hf. til eins af flaggskipum íslenska nýsköpunargeirans. Þarna birtist á Húsavík 3. iðnbyltingin í sinni skýrustu mynd; tölvu- og digitalvæðing atvinnulífsins. Á 21. öld er 4. iðnbyltingin viðfangsefnið; með fyrirséðum breytingum á atvinnuháttum af völdum sjálfvirknivæðingar. Þessum breytingum þurfa byggðirnar um landið að vera reiðubúnar að mæta.

Hraðið – nýsköpunarmiðstöð opnar haustið 2021

Hraðið – nýsköpunarmiðstöð er hýst og þróað af Þekkingarneti Þingeyinga. Starfsfólk og rekstur verkefnisins verður á vegum og innan veggja Þekkingarnetsins á meðan unnið er að útfærslu framtíðarhúsnæðis.

Tímalínan:

  • Jan./feb. 20201: Hraðið-nýsköpunarmiðstöð hlýtur fjármögnun til stofnunar og rekstrar frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti og á grunni byggðaáætlunar (c1).
  • Mars 2021: Auglýst eftir verkefnastjóra í 100% starf
  • Apríl-júní: Húsnæðismál útfærð og ákveðin, ráðning
  • Júlí-sept.: Mótun starfsemi, uppsetning Fab lab o.fl.
  • -nóv.: Opnun Hraðsins og Fab-lab smiðju í húsnæði í miðbæ Húsavíkur.

Í meginatriðum mun felst starfsemi Hraðsins í eftirfarandi þáttum:

  • Vinnuaðstaða frumkvöðla 24/7; fyrir einstaklinga til lengri og skemmri tíma
  • Fab-lab Húsavík; fullbúin tæknismiðja í samstarfsneti annarra slíkra
  • Vinnuaðstaða til móttöku starfsmannahópa/-teyma nýsköpunarfyrirtækja
  • Samnýting kennslu-/fyrirlestrarýma/rannsóknastofa þekkingarsetursins til ráðstefnuhalds og teymisvinnu.
  • Myndun aðlaðandi „vinnustaðar“ í frjóu umhverfi 25-40 starfsmanna
  • Ráðgjöf og miðlun milli frumkvöðla og atvinnuráðgjafa

Húsavík mætir 4. iðnbyltingunni

Hraðið – nýsköpunarmiðstöð er rökrétt þróun innviða þekkingarsamfélagsins á Húsavík með hliðsjón af þeim aðstæðum sem lýst er að framan.  Útfærsla og umfang miðast við sértækar aðstæður á Húsavík eins og lýst hefur verið hér, en meginþættir verkefnisins geta þó yfirfærst að nokkru leyti á önnur samfélög.  Verkefnið snýst þegar upp er staðið um að mynda jarðveg í frjóu umhverfi sem ætlað er að rækta hugmyndir og grípa fólkið sem hefur þessar hugmyndir. Fyrirfram vitum við ekki hverjar hugmyndirnar eru og þaðan af síður hvaða fólk kemur til með að eiga þær.  Út úr þessu getur orðið suðupottur sköpunar og hugmynda. Ef tekst að kynda undir slíkum potti er engin ástæða til að ætla annað en vel takist að mæta tækifærum og áskorunum 4. iðnbyltingarinnar á Húsavík.

 

  1. mars 2021

Óli Halldórsson, forstöðumaður

 

 

 

Deila þessum póst