Íbúum fjölgar um tæplega 1% á starfssvæði Þekkingarnetsins

Í dag kom út árleg skýrsla Þekkingarnets Þingeyinga um mannfjöldaþróun á starfssvæði Þekkingarnetsins.

Að þessu sinni er horft á tímabilið 2013-2022. Á þessu tíu ára tímabili hefur íbúum fjölgað í Norðurþingi, Tjörneshreppi og Skútustaðahreppi en fækkað í Langanesbyggð, Svalbarðshreppi og Þingeyjarsveit. Kynjahlutföllin sem voru nokkuð um 49% konur og 51% karlar árið 2013 hafa breyst í þá átt að nú eru konur 47% og 53% karlar. Meðalaldur Þingeyinga er um 3 árum hærri en landsmeðaltal. Íbúum hefur fjölgað í öllum byggðakjörnum að undanskyldum Bakkafirði og Laugum. Minnst er fjölgunin á Kópaskeri, um einn íbúa og en mest á Húsavík um 205 íbúa. Íbúum í dreifbýli fækkar allsstaðar á svæðinu nema í Skútustaðahreppi og í Öxarfirði.

Lokakafli skýrslunnar fjallar að þessu sinni um aðflutning og brottflutning. Þær upplýsingar ná yfir árin 2012-2021 og eru áhugaverðar um margt. Ef aðfluttir umfram brottflutta eru skoðaðir eftir kynjum á starfssvæði Þekkingarnetsins kemur í ljós að mun minni hreyfing er á konum en körlum á tímabilinu og að það hallar frekar í þá átt að fleiri konur séu brottfluttar en aðfluttar. Segja má að fjögur ár skeri sig úr þegar kemur að flutningum kvenna, árið 2012, 2016 og 2020 er brottfluttar konur á bilinu 36-48 umfram aðfluttar og árið 2017 eru aðfluttar 57 umfram brottfluttar. Hvað varðar karla eru það árin 2016 og 2017 sem skera sig úr varðandi aðflutning, en þá flytja annars vegar 177 og hins vegar 319 karlar. Árið 2018 og 2020 flytja fleiri karlar frá svæðinu en til þess, 274 fyrra árið en 2020 síðara árið.

Þegar flutningar milli sveitarfélaga innan Norðurlands eystra eru skoðaðir þá er algengar að bæði karlar og konur sem flytji frá sveitarfélögunum sem staðsett eru innan starfssvæðis Þekkingarnetsins en til þeirra. Mestur flutningur innan landsvæðisins er hjá körlum og konum árin 2013, 2019, 2020, 2021. Sömu sögu er í raun að segja með flutninga á milli landssvæða að þá er algengara að íbúar flytji frá sveitarfélögum á starfssvæði Þekkingarnetsins til sveitarfélaga utan Norðurlands eystra en frá sveitarfélögum utan svæðisins og til þess. Árin 2012, 2013, 2014, 2016 og 2020 fluttu samtals 163 fleiri konur frá svæðinu til annarra landsvæða á Íslendi en til svæðisins. Árin 2012, 2014, 2016 og 2018 eru flutningar karla frá svæðinu til annarra landssvæða en til þess. Alls fluttu 77 karlar umfram aðflutta frá sveitarfélögum á starfssvæði Þekkingarnetsins til annarra landssvæða á Íslandi.

Þegar flutnigar á milli landa eru skoðaðir kemur í ljós önnur mynd en þegar flutningar eru skoðaðir innan landssvæðis eða á milli landssvæða. Raunin er að í flestum tilfellum eru fleiri aðfluttir en brottfluttir bæði meðal karla og kynja. Aðeins árið 2012 eru brottfluttar konur fleiri en aðfluttar en þrjú ár eru það fleiri karlar sem eru brottfluttir en aðfluttir, 2013, 2018 og 2020.

Skýrsluna má nálgast hér.

Deila þessum póst