Rannsóknastarfsemi Þekkingarnetsins felst í meginatriðum í eftirfarandi þáttum:
- Rannsóknaþjónusta; þ.e. þjónusta, upplýsingagjöf, aðstaða fyrir rannsakendur á svæðinu.
- Eigin rannsóknarverkefni Þekkingarnetsins.
- Útseld rannsókna- og ráðgjafarvinna starfsfólks Þekkingarnetsins.
- Rannsóknaverkefni sem unnin eru í samstarfi við háskólanema.
- Þróunar- og rannsóknaverkefni í samstarfi við aðra stofnanir.
Rannsóknaþjónusta
Þekkingarnetið hefur það hlutverk samkvæmt skipulagsskrá og samningi við menntamálaráðuneytið að þjónusta vísinda- og fræðastarf í Þingeyjarsýslum. Þannig er lögð áhersla á að hýsa rannsakendur og aðstoða þá sem sinna rannsóknum í Þingeyjarsýslum með margvíslegum hætti. Slík þjónusta er veitt með aðgangi að húsnæði, tækjum og netkerfi Þekkingarnetsins auk þess sem ráðgjöf er veitt með formlegum og óformlegum hætti við rannsóknastarf.
Þessi rannsóknaþjónusta er veitt ýmsum aðilum, eftirtöldum helst:
- Starfsfólki rannsóknastofnana,
- rannsakendum á vegum háskóla á Íslandi,
- námsfólki í rannsóknaverkefnum,
- sjálfstæðum rannsakendum (íslenskum og erlendum).
Eigin verkefni Þekkingarnetsins
Þekkingarnetið hefur samkvæmt samningi við mennta- ogmenningarmálaráðuneyti og skipulagsskrá ákveðnar skyldur til frumkvæðis að rannsókna- og þróunarstarfi í héraðinu. Þannig er leitast við að afla þekkingar á samfélagi eða umhverfi í héraðinu með rannsóknastarfi og þátttöku í ýmsum þróunarverkefnum.
Þessi verkefni eru flest innlend og snúa að viðfangsefnum innan héraðsins, þ.e. starfssvæðis Þekkingarnetsins. Sérhæfing Þekkingarnetsins í eigin frumkvæðisverkefnum er svæðið; þ.e. bæði samfélag og umhverfi starfssvæðisins. Þannig er nálgun á þverfaglegum forsendum út frá sérhæfingu í svæðinu fremur en einstökum fagsviðum. Þekkingarnetið hefur þó frá upphafi fengist í töluverðum mæli við frumkvæðisverkefni sem tengjast hagnýtri og byggðatengdri nálgun.
Í auknum mæli hefur Þekkingarnetið fengist við og verið virkur þátttakandi í erlendum/alþjóðlegum rannsókna- og þróunarverkefnum. Þessi verkefni byggjast á samstarfi fjölmargra stofnana og fyrirtækja nær alltaf og eru í flestum tilvikum byggð á norrænum eða evrópskum grunni.
Útseld rannsókna- og ráðgjafavinna
Sala á sérfræðivinnu er alltaf hluti þeirrar vinnu sem rannsóknasvið Þekkingarnetsins sinnir. Þar koma jafnan til þjónusturansóknir og upplýsingaöflun fyrir sveitarfélög eða í samstarfi við þau. Þá hefur til þó nokkurra ára Þekkingarnetið sinnt allstóru vöktunarverkefni fyrir Landsvirkjun og fleiri aðila, þ.e. svokölluðu „Sjálfbærniverkefni á Norðurlandi“ sem hefur verið gefið nafnið „Gaumur“. Það verkefni hefur sjálfstæðan vef þar sem birtar eru niðurstöður samfélags- og umhverfisvöktunar: www.gaumur.is.
Rannsóknaverkefni háskólanema
Ár hvert leggur Þekkingarnetið áherslu á að halda úti tímabundnum rannsóknaverkefnum fyrir háskólanema. Þessi verkefni eru að mestu fjármögnuð úr verkefnasjóði sem Þekkingarnetið heldur utan um en sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum fjármagna. Öll ár frá stofnun Þekkingarnetsins hefur stofnunin haldið úti slíkum verkefnum jafnan á bilinu 3-5 á sumri. Markmið þessara verkefna er tvíþætt í meginatriðum, þ.e. annars vegar kynna rannsóknavinnu í heimahéraði fyrir ungu námsfólki af svæðinu og skapa atvinnu, en hins vegar búa til vettvang fyrir hagnýtar rannsóknir sem geta haft jákvæð áhrif til eflingar samfélaganna.
Á heimasíðunni má finna allt útgefið efni Þekkingarnetsins en þar má nálgast flestar þær rannsóknir sem stofnunin hefur gefið út.